Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir nokkru ákvað nefndin að stíga til hliðar og gefa umboðsmanni Alþingis tækifæri á að hefja frumkvæðisathugun á skipan dómara við Landsrétt. Í gær tilkynnti umboðsmaður að hann telji ekki þörf á að hefja frumkvæðisathugun á málinu. Telur UA að flest allt hafi komið fram í dómum Hæstaréttar nr. 591/2017 og 592/2017 og því ekki þörf á frekari rannsókn málsins.

Það vekur því athygli á því að Píratar og Samfylkingin í fararbroddi, ásamt öðrum flokkum í stjórnarandstöðu hafi lagt fram vantrauststillögu á hendur Sigríðar Andersen eins og gert var í fyrradag. Að flokkarnir leggi fram vantrauststillögu kemur ekki á óvart, þar sem þeir og þá sérstaklega Píratar hafa öskrað sig hása síðan að skipað var í embættin en spyrja má af hverju þeir gerðu það ekki strax eftir birtingu dóms Hæstaréttar.

Síðustu mánuði hefur mikið verið fjallað um þetta mál í fjölmiðlum og þar hafa Píratar haft manna hæst. Við svona gífurlegan mikinn fréttaflutning þar sem hamrað er aftur og aftur á sömu hlutunum er ekki skrítið að ólögfróðir aðilar skilji ekki aðal atriði málsins og fallist á málflutning Pírata. Því er nauðsynlegt að fara aðeins yfir aðal atriði þessa máls.

Við skipun í stöður Landsréttardómara þá fékk sérstök nefnd það hlutverk að meta hæfni hvers og eins umsækjanda og skila til ráðherra lista yfir þá sem nefndin teldi hæfasta. Fékk nefndin til þess töluverðan tíma, þ.e. nokkra mánuði. Nefndin mat fimmtán umsækjendur af þrjátíu og þremur hæfasta til að gegna þessum embættum og skiluðu lista með þessum fimmtán aðilum til ráðherra.

Ráðherra skoðar listann og ræðir hann óformlega við formenn annara flokka á þingi þar sem skipun þessi þurfti að fara í gegnum Alþingi og vera samþykkt af meirihluta þingmanna. Þar var strax ljóst að listinn yrði ekki samþykktur óbreyttur m.a. í ljósi kynjahlutfalla. Við nánari athugun ákvað ráðherra að auka vægi dómarareynslu í excel skjalinu sem nánar verður vikið að hér á eftir. Við það duttu fjórir karlmenn út af listanum og í stað komu tveir karlar og tvær konur. Við það að auka dómaravægi, sem teljast verður málefnaleg ástæða, urðu kynjahlutföllin jafnari, s.s. átta karlar og sjö konur. Hlaut það því náð m.a. Viðreisnar sem setti sig gífurlega á móti fyrri lista. Hér ber að athuga að það er ráðherra sem fer með skipunarvaldið en ekki nefndin.
Á þessum tíma hafði ráðherra aðeins tvær vikur til að koma listanum í gegnum Alþingi. Þurfti því að meta rannsóknarregluna með málshraðaregluna til hliðsjónar.
Ráðherra sem fer með bæði lagalega og pólitíska ábyrgð á embættisfærslum sínum sbr. 14. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, fer því með breyttan lista til Alþingis þar sem meirihluti samþykkir hann.

Eftir að Alþingi samþykkir listann þá byrjar fjaðrafokið. Stjórnarandstaðan með Pírata í fararbroddi keppast um að úthúða ríkisstjórninni og ráðherrum hennar fyrir að hafa samþykkt þennan lista og byrja þá herferð sem er í gangi enn þann dag í dag. Eftir að dómur Hæstaréttar var kveðinn hefur aðal áherslan í málflutningi Pírata verið að ráðherra braut lög og að allt traust á dómsstólum sé farið.
Að mínu mati er ákveðin þversögn í því þar sem ég tel að málflutningur Pírata hafi skaðað traust almennings á dómskerfinu margfalt meira en þetta mál.

Í niðurstöðu nefndarinnar eru tilgreindir fimmtán aðilar sem taldir eru hæfastir af nefndinni til þess að gegna stöðu Landsréttardómara. Velta má upp þeirri spurningu hverjar líkurnar á því séu að úr þrjátíu og þriggja manna hópi þar sem ráða á fimmtán að nákvæmlega fimmtán séu hæfastir? Við mat sitt notaði nefndin Excel skjal sem hefur alltof lítið komið til umræðu. Á málfundi Lögréttu þar sem Haukur Örn Birgisson hrl. og Jakob R. Möller formaður dómnefndar um hæfi umsækjanda til dómaraembætta, mættust og tókust á um skipun dómaranna kom margt áhugavert fram. Þar hafði Haukur búið til svipað Excel skjal og dómnefndin hafði notað. Með því að breyta einkunn sem dómnefndin gefur viðkomandi í ákveðnu flokki um einn, t.d. úr sjö í sex, þá gat viðkomandi fallið um 6 sæti og jafnvel frá því að vera einn af efstu fimmtán og í átjánda sætið. Einn af tilgangi þessa Excel skjals er að takmarka huglægt mat og auka vægi hlutlæga matsins. Vandamálið við það er að það verður ekki hjá því komist að leggja mat á ákveðna þætti með huglægu mati. Hlutlæga matið mun aldrei ná að skera úr um hæfni með afgerandi hætti án þess að huglæga matið sé til staðar.
Þess má geta að í þremur flokkum fengu allir þrjátíu og þrír umsækjendurnir tíu í einkunn. Það liggur í eðli málsins að þrjátíu og þrír einstaklingar geta ekki verið nákvæmlega jafn góðir í þremur flokkum. Bara með þessum annmarka er staðfest að niðurstaða nefndarinnar er ekki eins fullkomin og margir vilja halda.

Í málflutningi þessa máls er í flestum tilfellum gengið að því vísu að niðurstaða nefndarinnar sé óskeikul. Staðreyndin er sú að aðferðafræði nefndarinnar er stórgölluð. Það er ein ástæða þess að umboðsmaður Alþingis ætlar að hefja frumkvæðisathugun á ferlinu hjá nefndinni.

Það er því ljóst að vantrauststillagan og ummæli þeirra sem að henni standa byggjast á pólitískum skrípaleik sem gerður er til að koma höggi á ríkisstjórnina ásamt Sjálfstæðisflokkinn.

Nánar verður fjallað um umræður þingsins í gær þegar vantrauststillagan var tekin til meðferðar í öðrum pistli.

Við hæfi er að enda þennan pistil á málshættinum „bylur hæst í tómri tunnu”.