Breyting á reglugerð um gististaði.

Nú fyrir nokkrum dögum varð gerð breyting á reglugerð nr. 1277/2016. Með þessari breytingu er sú krafa að húsnæði þarf að vera á atvinnulóð eða á þjónustusvæði til þess að hægt sé að fá rekstrarleyfi fyrir útleigu til ferðamanna afnumin. Ljóst er að þessi krafa var gífurlega íþyngjandi þegar hún tók gildi árið 2016 og hefur sett rekstur mörg hundruð aðila í algjöra óvissu.

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu þann 27. Júní.

„Ekki er lengur gerð krafa um að allir gististaðir utan heimagistingar skuli vera starfræktir í atvinnuhúsnæði en krafan þótti of takmarkandi út frá ráðstöfunarrétti fasteigna í eigu einstaklinga og lögaðila.

Eftir breytingu á reglugerð nr. 1277/2016 með reglugerð nr. 649/2018 varðandi veitingu rekstrarleyfa til gististaða mun leyfisveitandi engu að síður afla umsagna við umsókn um rekstrarleyfi hjá eftirtöldum aðilum; sveitarstjórn sem staðfestir að staðsetning gististaðar sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag þess kveður á um, heilbrigðisnefnd, byggingarfulltrúa, slökkviliði, Vinnueftirlitinu og lögreglu. Jafnframt er gerð krafa um að gististað skuli aðeins starfrækja í húsnæði sem byggingaryfirvöld hafa samþykkt og skuli vera í samræmi við gildandi skipulag á viðkomandi svæði en ekki verður lengur gerð ófrávíkjanleg krafa um skilgreiningu viðkomandi húsnæðis sem atvinnuhúsnæðis.”

Ég fagna þessari breytingu verulega þar sem rekstrargrundvöllur River Apartments er því ekki lengur í óvissu.

Ég hef bent á í tveimur greinum sem ég hef skrifað alvarlega galla þegar kemur að Airbnb og gististöðum. Annars vegar takmörkun á ráðstöfunarrétti eigenda fasteignar, þar sem rekstarleyfi í leyfisflokki II-IV var takmarkað við atvinnulóð og hins vegar alltof lítið eftirlit með Airbnb þar sem skattaundanskot eru gífurleg. Ljóst er að Þórdís Kolbrún hefur tekið á báðum þessum atriðum og á hún lof skilið fyrir það!