Er fyrirkomulag samfélagsþjónustu brot gegn stjórnarskránni?

Í pistli þessum ætla ég að gera að umtalsefni grein Ástríðar Grímsdóttur sem birtist í 4. hefti Tímariti lögfræðinga veturinn 2017. Greinin ber heitið „Eru 37. til 41. gr., og 89. til 90. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsingar brot gegn 2. og 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu“?

Í stuttu máli snýst greinin um það fyrirkomulag að Fangelsismálastofnun, stofnun sem heyrir undir framkvæmdarvaldið, getur breytt dómum á þann hátt að stofnunin getur veitt fanga heimild til að sinna samfélagsþjónustu í stað þess að sitja dóminn af sér inn í fangelsi.

Í 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, (hér eftir „stjskr.“), er kveðið á um þrískiptingu ríkisvalds. Alþingi fer með löggjafarvaldið, stjórnvöld með framkvæmdarvaldið og dómarar með dómsvaldið.
Framkvæmdavaldið hefur því ekki heimild til þess að grípa inn í úrlausnir dómara.

Þrátt fyrir það er framkvæmdin á Íslandi með þeim hætti að eftir að dómari dæmir einstakling í  allt að eins árs óskilorðsbundið fangelsi, þá getur Fangelsismálastofnun „breytt“ þeim dómi með því að heimila viðkomandi að fullnusta dóminn með samfélagsþjónustu. Ákvörðun að veita samfélagsþjónustu er í höndum Fangelsismálastofnunar og hefur dómari ekki heimild til þess að dæma einstakling til þess að sinna samfélagsþjónustu.

Í nágrannalöndum okkar, s.s. Danmörk, Svíþjóð, Noregur og England, er það dómari sem fer með það vald að dæma einstaklinga til þess að sinna samfélagsþjónustu. Þó er vert að nefna að einstaklingurinn þarf að samþykkja að sinna samfélagsþjónustu. Ef viðkomandi neitar því, þá er hann dæmdur til þess að fullnusta dóm sinn með öðrum hætti.

Þegar endurupptökunefnd var komið á laggirnar hafði hún heimild til þess að fella dóma úr gildi, taldi hún þess þarft að endurupptaka þá. Hæstiréttur var fljótur að segja að sú heimild færi gegn stjórnarskránni og væri því að vettugi virðandi. Dómarar hafa heimildina skv. 2. gr. stjskr. til þess að fara með dómsvaldið og því verður það ekki framselt til stofnunar sem heyrir undir framkvæmdarvaldið.

Í hegningarlögum eru ítarleg ákvæði um hvernig refsingum getur verið háttað. Dómari hefur ekki vald til þess að fara út fyrir þann lagaramma. Eins og áður hefur verið vikið af, þá hefur löggjafinn fært vald yfir til Fangelsismálastofnunar að breyta niðurstöðu refsidóma í samfélagsþjónustu, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Engin skýring hefur verið gefin af hverju þessi tegund af viðurlögum hefur verið tekin út fyrir sviga og sett yfir til stofnunar á vegum framkvæmdarvaldsins í stað þess að veita dómurum heimild til þess að dæma þetta sjálfir.

Það er því ljóst að þessi framkvæmd brýtur í bága við stjórnarskránna auk 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af hverju löggjafinn fellir ákvæði um samfélagsþjónustu ekki undir hegningarlögin er spurning sem vert er að spyrja.